Oscar Wilde

Einn skemmtilegasti og jafnframt litríkasti rithöfundur Breta á síðari hluta 19. aldar var Oscar Wilde eða Oscar Fingal O'Flahertie Wills Wilde eins og hann hét fullu nafni.  Var hann fæddur í Dyflinni á Írlandi 16. október árið 1854 en hann lést einungis 46 ára gamall í París 30. nóvember árið 1900.  Á sínum tíma var hann helst þekktur fyrir frábær leikrit sem hann skrifaði (alls 9 að tölu) og einnig fyrir ljóð, smásögur og eina skáldsögu The Picture of Dorian Gray.  Var Wilde einn skeleggasti fulltrúi fagurfræðinnar, en sú stefna átti þá töluverðu fylgi að fagna í Englandi, en megininntak hennar er ,,listin listarinnar vegna”.  En það voru ekki bara ritstörfin sem héldu nafni Wildes á lofti.  Maðurinn var í alla staði mjög umdeildur ekki síst fyrir líferni sitt, en hann var t.a.m. dæmdur og settur í fangelsi fyrir samkynhneigð sem þá var bönnuð á Englandi.  En hvað sem því leið þá var Wilde frábær rithöfundur og sýnir það best hve verk hans lifa góðu lífi enn þann dag í dag. Eina skáldsagan sem hann skrifaði um dagana The Picture of Dorian Gray ætti í raun að vera skyldulesning fyrir alla sem unna góðum bókmenntum.

Oscar Wilde fæddist eins og áður sagði í Dyflinni á Írlandi 16. október árið 1854.  Voru foreldrar hans bókhneigt fólk, en faðir hans Sir William Wilde var virtur skurðlæknir og gaf einnig út bækur um ýmislegt s.s. fornleifafræði, þjóðsögur rit satíristans Jonathans  Swifts (þess er skrifaði sögurnar um Gúllíver) og margt fleira.  Móðir Wildes var ljóðskáld og sérhæfði sig auk þess í keltneskri goðafræði og þjóðsögum.

Oscar gekk í skóla á Írlandi og þótti framúrskarandi námsmaður.  Eftir þriggja ára nám við háskólann í Dyflinni hélt Oscar árið 1874 til Oxford til frekara náms.  Stóð hann sig þar einnig vel og útskrifaðist með láði. 

Á þeim árum óx vegur hans sem fræðimanns en einnig gat hann sér orðs sem hinn mesti háðfugl.  Þar fer hann líka fyrst að láta að sér kveða sem skáld.  Vann hann til verðlauna fyrir ljóð sitt Ravenna í ljóðasamkeppni árið 1878.  Í Oxford varð hann einnig fyrir áhrifum frá hinum svokölluðu fagurfræðingum, sem lögðu áherslu á mikilvægi listarinnar í lífinu og það að menn ættu að ,,lifa lífinu lifandi”.

Eftir Oxford hélt hann til Lundúna þar sem hann fór mikinn og setti töluverðan svip á menningarlífið.  Barst hann mikið á og birtist mönnum sem mikill fagurkeri og  orðheppinn með afbrigðum.  Beitti hann orðkynngi sinni og háði óspart í samkvæmislífinu með eftirminnilegum hætti og aflaði það honum bæði vina og óvildarmanna.  Varð hann brátt svo þekktur og umtalaður að óperusmiðirnir Gilbert og Sullivan notuðu hann sem fyrirmynd að einni persónunni í óperu sinni Patience.  Árið 1881 gaf hann út fyrstu ljóðabókina sína á eigin kostnað.

Frægð Wildes barst víða  og árið 1882 bauðst honum að halda í fyrirlestraferð til Ameríku og Kanada.  Fræg eru orð hans við komuna til Ameríku er hann var spurður hvort hann hefði einhvern tollskyldan varning meðferðis:  ,,I have nothing to declare but my genius” (Ég hef ekkert að telja fram nema snilli mína).

Vakti heimsókn Wildes til Vesturheims töluverða athygli og eins og áður voru menn ekki á eitt sáttir.  Þótti sumum lítið til þessa spjátrungs koma og gengu dagblöð þar fremst í flokki.  En annað var uppi á teningnum hjá flestum sem hlýddu á fyrirlestrana.  Höfðu þeir mjög gaman af mælsku hans. 

Árið 1884 giftist Oscar Constance Lloyd.  Eignuðust þau tvö börn á árunum 1885 og 1886.  Á þessum árum stundaði Wilde ýmis störf, var m.a. gagnrýnandi fyrir blaðið Pall Mall Gazette og ritstjóri ritsins Woman's World.  Þá var hann á þessum árum einnig að finna sér farveg sem rithöfundur.  Árið 1888 gaf hann út bókina The Happy Prince and Other Tales, sem eru rómantískar líkinga- eða táknsögur færðar í búning ævintýra.  Fáum hefur tekist að skrifa ævintýri af slíku listfengi og þannig að þau henta jafnt börnum og fullorðnum. 

The Picture of Dorian Gray, fyrsta og jafnframt eina skáldsagan hans, kom út á bók árið 1891, en hafði verið birt í tímaritinu Lippincott's Magazine árið áður.  Er það stórbrotin saga  þar sem Wilde vinnur enn frekar með flókið táknmál og setur inn í tilbúinn ævintýraheim fyrir fullorðna.  Má segja að hann hafi þar á margan hátt fullkomnað þetta listform og útkoman er fölskvalaust meistaraverk.  Með því að skírskota svo sterkt inn í heim ævintýranna nær Wilde að gera söguna óháða tíma og rúmi og því stendur hún jafn sterk í dag sem hún gerði þegar hún var skrifuð.  Aðalpersónan Dorian Gray hefur orðið nokkurs konar tákngervingur fyrir baráttu góðs og ills annars vegar og fegurðar og hrörnunar hins vegar, auk þess sem  hún gefur okkur innsýn inn í flókið samspil hugsana og framkvæmda okkar mannanna.
Sama ár gaf hann út ritgerðasafnið Intentions þar sem hann fjallar um viðhorf sitt til listar og fegurðar og auk þess tvær bækur með styttri sögum og ævintýrum.  Hét önnur Lord Savile's Crime og hin A House of Pomegranates. 

En það var þó sem leikritaskáld sem stjarna Wildes reis hæst meðan hann lifði.  Voru leikrit hans á yfirborðinu flest öll gamanleikrit en full af þungri þjóðfélagsádeilu sem kraumaði undir niðri.  Fyrsta leikritið Lady Windermere's Fan aflaði honum strax töluverðra vinsælda.  Næsta leikrit hans,  Salóme skrifaði hann á frönsku og var það ólíkt hinum leikritum hans í því að það var ekki gamanleikrit.  Ádeilan var þó áfram til staðar.  Voru sýningar á því stöðvaðar vegna þess að persónur í því voru teknar úr Biblíunni.

Næst kom gamanleikurinn A Woman of No Importance, en með því fór hann einnig að hljóta jákvæðari undirtektir gagnrýnenda.  Síðustu tvö leikrit hans sem jafnframt eru talin hans bestu voru The Ideal Husband og The Importance of Being Earnest.  Birtust þau árið 1894.  Í þeim rís þjóðfélagsádeila hans hæst, en skaðar þó á engan hátt gamanið sem Wilde spinnur óaðfinnanlega með frábærum söguþræði. 

Í mörgum verka Wildes er fjallar hann um einhvers konar opinberun leyndarmáls og/eða uppljóstrun sem leiðir til skammar fyrir einhvern.   Minnir það á margan hátt á líf Wildes sjálfs sem var sjálfur samkynhneigður á tímum þegar slíkt var refsivert athæfi.   Átti hann í sambandi við ungan mann, Alfred Douglas lávarð, en það varð til þess að faðir Douglas sótti Wilde til saka fyrir að afvegaleiða son sinn í þeim efnum.  Var Wilde dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar og erfiðisvinnu í kjölfarið.  Gekk sú vist mjög nærri honum og þegar honum var sleppt úr fangelsi var hann auralaus og nánast upp á aðra kominn fjárhagslega.

Ákvað hann að flytjast til Frakklands og dvaldi þar þau þrjú ár sem hann átti eftir ólifað.  Var það ætlun hans að reyna að endurvekja fyrri frægð sem rithöfundur.   Í Frakklandi náði hann þó einungis að ljúka einu verki, The Ballad of Reading Gaol, þar sem hann vekur athygli á ómannúðlegum aðstæðum sem fangar bjuggu við. 

Leið honum bærilega í Frakklandi þrátt fyrir fátækt og virtist sem náttúruleg glaðværð hans hafi haldið honum gangandi.  Vinir hans heimsóttu hann og réttu honum hjálparhönd, m.a. Max Beerbohm og Robert Ross, en sá síðarnefndi var hjá honum þegar hann lést. 

Bar dauða hans brátt að en hann veiktist af  bráða heilahimnubólgu og lést af völdum hennar eftir stutta legu 30. nóvember árið 1900 í París.  Lét hann á banabeði sínu verða af því að snúast til kaþólskrar trúar sem hann hafði lengi haft áhuga á. 

Var hann trúr sínu eðli alveg fram í andlátið og hélt í húmorinn og glaðværðina.  Lá hann banaleguna á heldur sóðalegu hóteli í París.  Þótti honum veggdúkurinn í herberginu heldur ljótur og sagði:  ,,Ég og þessi veggdúkur heyjum harða baráttu upp á líf og dauða.  Annað hvort okkar verður að fara.”  Segir sagan að rétt áður en hann gaf upp andann hafi hann beðið um glas af kampavíni. 

 

Tilvitnanir

Eins og áður sagði var Wilde þekktur fyrir hnyttin tilvör og mikla mælsku og hafa margar sögur lifað af hnyttnum tilvörum hans.  Eftirfarandi tilsvör hafa verið höfð eftir honum:

Ég ferðast aldrei án dagbókar minnar.  Maður á alltaf að hafa eitthvað skemmtilegt að lesa í lestum.

Allar konur verða eins og mæður þeirra.  Það er þeirra böl.  Feður verða það hins vegar ekki og það er þeirra böl.

Einu sinni var Wilde beðinn að útbúa lista yfir hundrað bestu bækurnar.  ,,Það get ég ekki”, svaraði hann, ,,ég hef aðeins skrifað fimm.”

Munurinn á blöðum og bókmenntun er að blöð eru ólæsileg  og bókmenntir eru ekki lesnar.